Vöruskipti hagstæð um 100 milljarða
Vörur voru fluttar út fyrir 462,7 milljarða króna fyrstu tíu mánuði þessa árs en flutt var inn fyrir 364,2 milljarða króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd sem nam 98,5 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 74,0 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 24,5 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.
Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að í október hafi verið fluttar út vörur fyrir 47 milljarða króna og inn fyrir 36,9 milljarða króna. Vöruskiptin í október voru því hagstæð um 10,1 milljarð króna. Í október 2009 voru vöruskiptin hagstæð um tæpa 10,5 milljarða króna á sama gengi¹.
Sjávarafurðir voru 39,7 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 7,7 prósentum meira en á sama tíma árið áður. Útfluttar iðnaðarvörur voru 55,4 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 34,2 prósentum meira en á sama tíma árið áður.
SJÁVARAFURÐIR Nema rétt tæpum fjörutíu prósentum alls útflutnings það sem af er árinu.