Myrk­ir í máli í Hæsta­rétti

Fréttablaðið - - FORSÍÐA - Ad­al­heidur@fretta­bla­did.is

Munn­leg­ur mál­flutn­ing­ur hófst í Guð­mund­ar- og Geirfinns­mál­um í Hæsta­rétti í gær. Verj­end­ur voru myrk­ir í máli um alla rann­sókn og með­ferð mál­anna á sín­um tíma. Sak­sókn­ari spar­aði held­ur ekki stóru orð­in um óhóf­lega ein­angr­un­ar­vist sak­born­inga og slæma vist í Síðumúlafang­elsi. Hann fer fram á sýknu í mál­inu.

Munn­leg­ur mál­flutn­ing­ur hófst í Guð­mund­arog Geirfinns­mál­um í gær. Eng­inn dóm­felldu var við­stadd­ur nema Erla. Verj­end­ur brýndu dóm­ara til að leið­rétta mis­tök Hæsta­rétt­ar í mál­inu.

„Ég vænti þess að þessi dóm­ur verði þannig sam­inn að hann sendi skila­boð til dóm­stól­anna í land­inu, til ákæru­valds­ins og til fram­tíð­ar­inn­ar að þetta ger­ist ekki oft­ar í saka­mál­um,“sagði Ragn­ar Aðal­steins­son, verj­andi Guð­jóns Skarp­héð­ins­son­ar, við munn­leg­an mál­flutn­ing í Hæsta­rétti í gær.

Mörg þung orð féllu í þess­um lang­þráða mál­flutn­ingi í Guð­mund­ar- og Geirfinns­mál­um fyr­ir Hæsta­rétti sem hófst í gær. Mál­ið er nú flutt fyr­ir rétt­in­um í ann­að sinn, eft­ir að end­urupp­töku­nefnd féllst á end­urupp­töku­beiðn­ir fimm af sex dóm­felldu í mál­inu.

Verj­end­ur Kristjáns Við­ars Júlí­us­son­ar, Guð­jóns Skarp­héð­ins­son­ar og Sæv­ars Marinós Ciesi­elski fluttu mál sinna skjól­stæð­inga í gær. Byggðu verj­end­ur og reynd­ar sak­sókn­ari einnig á því að játn­ing­ar sak­born­inga hefðu ver­ið fengn­ar fram með ólög­mæt­um hætti og löng ein­angr­un­ar­vist leiki þar stærsta hlut­verk­ið. Davíð Þór Björg­vins­son sak­sókn­ari, sem fer fram á sýknu allra dóm­felldu, komst þannig að orði að sterk­ar vís­bend­ing­ar væru um að gæslu­varð­haldi og ein­angr­un hefði bein­lín­is verði beitt til að brjóta nið­ur mót­stöðu sak­born­inga og knýja játn­ing­ar fram.

Þá hefði sak­born­ing­um ver­ið refs­að í ein­angr­un­ar­vist­inni þeg­ar þeir reyndu að draga játn­ing­ar til baka og umb­un­að þeg­ar þeir dróg­ust inn á þær aft­ur. Þetta komi með óyggj­andi hætti í ljós þeg­ar lög­reglu­skýrsl­ur séu metn­ar með hlið­sjón af dag­bók Síðumúlafang­els­is sem lögð hef­ur ver­ið fram í mál­inu. „Þess­ar játn­ing­ar urðu til við al­gjör­lega ófor­svar­an­leg­ar rann­sókn­ar­að­ferð­ir, sem virt­ust alls ekki hafa það að mark­miði að finna sann­leik­ann held­ur að laga þær að ein­hverri kenn­ingu rann­sókn­ar­að­ila,“sagði Jón Stein­ar Gunn­laugs­son, verj­andi Kristjáns Við­ars Júlí­us­son­ar, í sinni ræðu.

Eft­ir að hafa fjall­að um máls­með­ferð lög­reglu, ákæru­valds og dóm­stóla og brot á helstu rétt­ind­um sak­aðra manna, brýndi Ragn­ar rétt­inn til að sýna áræðni.

„Ég geri mér grein fyr­ir því, virðu­legi Hæstirétt­ur, að þetta geti ver­ið erfitt fyr­ir dóm­ar­ana, af því að nú er­um við að fjalla um dóm sem þessi sami dóm­stóll kvað upp ár­ið 1980 og er­um óbeint að fjalla um synj­un hans á end­urupp­töku ár­ið 1997 og einn af dómur­um sem tóku þátt í þeirri synj­un er enn dóm­ari við rétt­inn. Ég geri mér grein fyr­ir því að það þarf áræðni til að fjalla um þetta mál svo við­un­andi sé,“sagði Ragn­ar. Hann fer fram á að Guð­jón verði lýst­ur sak­laus í for­send­um nýs dóms enda liggi fyr­ir að fyrri játn­ing­ar hans séu falsk­ar og ekk­ert að marka þær.

Eng­inn dóm­felldu var við­stadd­ur mál­flutn­ing­inn í gær, nema Erla Bolla­dótt­ir. Henni var synj­að um end­urupp­töku síð­ast­lið­inn vet­ur. Mál­flutn­ingi verð­ur fram­hald­ið í dag og munu verj­end­ur Tryggva Rún­ars Leifs­son­ar og Al­berts Kla­hn Skafta­son­ar flytja sín­ar ræð­ur fyr­ir Hæsta­rétti.

Ég geri mér grein fyr­ir því, virðu­legi Hæstirétt­ur, að þetta geti ver­ið erfitt fyr­ir dóm­ar­ana. Ragn­ar Aðal­steins­son verj­andi

Það er mik­ið vel­ferð­ar­mál fyr­ir rétt­ar­rík­ið á Íslandi að þetta verði, þótt seint sé, leið­rétt nú.

Jón Stein­ar Gunn­laugs­son verj­andi

FRÉTTA­BLAЭIÐ/ERNIR

Í Hæsta­rétti í gær.

FRÉTTA­BLAЭIÐ/ERNIR

Verj­end­ur sak­born­ing­anna í Guð­mund­ar- og Geirfinns­mál­um við upp­haf munn­legs mál­flutn­ings í Hæsta­rétti í gær. Mál­ið held­ur áfram í dag.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.