Óð­ur til áhrifa­valda

Fréttablaðið - - SKOÐUN -

DVD-spil­ar­inn minn eyði­lagð­ist í síð­ustu viku. Ég keypti hann fyr­ir tólf ár­um í versl­un sem nú er far­in á haus­inn. Tím­arn­ir breyt­ast og menn­irn­ir með. En ekki ég. Það sem gerð­ist næst hefði átt heima á for­síðu Frétta­blaðs­ins: „Kona fór út í búð og keypti DVD­spil­ara.“Hver kaup­ir nýj­an DVD-spil­ara þeg­ar sá gamli gef­ur upp önd­ina ár­ið 2018?

Ásetn­ing­ur minn er ekki að snúa við þró­un manns­ins: Net­flix, Blu-ray, DVD, víd­eó­tæk­ið, ekk­ert sjón­varp á fimmtu­dög­um, iðn­bylt­ing­in, upp­lýs­ing­in, land­bún­að­ar­bylt­ing­in og BAMM: ég er safn­ari og veiði­mað­ur sprang­andi um á slétt­um Afríku á Evu­klæð­un­um. Neyð­in kenn­ir hins veg­ar naktri konu að spinna.

Net­flix og YouTu­be

Sama dag og DVD-spil­ar­inn minn gaf upp önd­ina voru kynnt­ar á Skóla­mála­þingi Kenn­ara­sam­bands Ís­lands fyrstu nið­ur­stöð­ur viða­mik­ill­ar rann­sókn­ar fræðimanna við Há­skóla Ís­lands á stöðu og fram­tíð ís­lensk­unn­ar á tím­um sta­f­rænna sam­skipta og snjall­tækja. Með­al þess sem rann­sókn­in leiddi í ljós er að enska í mál­um­hverfi ís­lenskra barna er meiri og á fleiri svið­um en nokkru sinni fyrr og stór hluti 3-5 ára barna horf­ir á enskt efni á Net­flix eða YouTu­be tvisvar í viku.

Enda­slepp­ur elt­inga­leik­ur

Ég bý á Englandi og á tvö börn. Í ein­feldni minni hélt ég að það yrði leik­ur einn að kenna þeim ís­lensku. Í reglu­bund­inni heim­sókn til Ís­lands ný­ver­ið runnu hins veg­ar á mig tvær grím­ur. Mig vant­aði barnapíu svo ég kveikti á sjón­varp­inu. Börn­in vildu horfa á teikni­myndaserí­una Gló magn­aða sem sýnd er tal­sett í Sjón­varp­inu. Ég fann hana á RÚV-vefn­um og hugs­aði mér gott til glóð­ar­inn­ar: Tvær flug­ur í einu höggi; næði og ís­lensku­kennsla.

„Meira, meira,“var hróp­að úr stof­unni þeg­ar þætt­in­um lauk í miðj­um æsispenn­andi elt­inga­leik og á lof­orð­inu: „Fram­hald í næsta þætti.“

En þeg­ar kveikt var á næsta þætti ból­aði ekk­ert á elt­inga­leikn­um. Í ljós kom að þætt­irn­ir höfðu ekki ver­ið sýnd­ir í réttri röð í Sjón­varp­inu og ég fann hvergi rétt­an þátt. Allt ætl­aði um koll að keyra. Hvað var til bragðs að taka? Ég teygði mig í spjald­tölv­una, fór á net­ið og fann þar þátt­inn sem börn­in horfðu á al­sæl – á ensku.

Mörg­um þyk­ir þetta at­vik ef­laust lít­il­vægt. Dæm­ið fang­ar hins veg­ar við­horf­ið sem mun ganga af ís­lensk­unni dauðri.

Dæg­ur­menn­ing barna

Við get­um gef­ið út gulli slegn­ar heið­ursút­gáf­ur af rit­verk­um Hall­dórs Lax­ness. Við get­um sett Ís­lend­inga­sög­urn­ar á in­ter­net­ið og fagn­að því með frétta­til­kynn­ingu og kampa­víns­mót­töku. Við get­um hengt fálka­orð­ur á rit­höf­unda. Við get­um fellt öll börn lands­ins á ís­lensku­prófi fyr­ir að segja „mér hlakk­ar til“. En ís­lensk­unni verð­ur ekki bjarg­að úr fíla­beinst­urni.

„Við þurf­um að átta okk­ur á því hvað það er lít­ið af ís­lensku efni á net­inu og kannski er það það sem há­ir okk­ur líka; okk­ur vant­ar bæk­ur og þætti á ís­lensku,“sagði Sig­ríð­ur Sig­ur­jóns­dótt­ir, pró­fess­or í ís­lenskri mál­fræði við Há­skóla Ís­lands, í við­tali við Morg­un­blað­ið en hún er ein þeirra sem fara fyr­ir fyrr­nefndri rann­sókn.

Hve marg­ir barna­bóka­höf­und­ar fá lista­manna­laun? Hve stór hluti Kvik­mynda­sjóðs fer í barna­efni? Hvenær fá Jó­iPé og Króli Verð­laun Jónas­ar Hall­gríms­son­ar? Hvenær fær Binni Glee fálka­orðu?

Dæg­ur­menn­ing barna gegn­ir mik­il­vægu hlut­verki við varð­veislu ís­lensk­unn­ar. En samt gef­um við skít í hana. Börn mega horfa á teikni­myndaserí­una sína í belg og biðu. Við hæð­umst að áhrifa­völd­um á sam­fé­lags­miðl­um sem þó fram­leiða eitt af því litla efni á ís­lensku sem krakk­ar geta nálg­ast á YouTu­be, Insta­gram og Snapchat.

Ég kaupi úr sér gengna DVD-diska á Íslandi og spila þá fyr­ir börn­in mín í London. Slíkt jafn­ast þó á við að úr­skurða hest­vagn nógu gott far­ar­tæki til að ferð­ast með frá Breið­holti nið­ur í mið­bæ. Við kom­umst ekki langt inn í fram­tíð­ina á far­ar­skjóta for­tíð­ar. Vilj­um við að ís­lensk­an fylgi okk­ur um ókom­in ár verð­um við að bjóða henni far.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.