Mörg líf Bubba

Bubbi Mort­hens er stáls­leg­inn eft­ir erf­ið veik­indi á síð­asta ári. Í Borg­ar­leik­hús­inu verð­ur sett­ur á svið söng­leik­ur sem bygg­ir á lög­um hans.

Fréttablaðið - - FORSÍÐA - Kristjana Björg Guð­brands­dótt­ir [email protected]­bla­did.is

Bubbi Mort­hens um nýj­an söng­leik sem bygg­ir á lög­um hans.

Ég var sett­ur í geymslu í grunn­skóla, tossa­bekk­inn í Voga­skóla. Þar brotn­aði auð­vit­að eitt­hvað.

Söng­leik­ur sem bygg­ir á tónlist Bubba Mort­hens verð­ur sett­ur á svið í Borg­ar­leik­hús­inu. „Kannski fæ ég að laum­ast inn í eitt lag eða eitt­hvað slíkt. Ég heyri það á þeim sem eru með þetta í fang­inu að söng­leik­ur­inn eigi að spegla að ein­hverju leyti sögu þjóð­ar­inn­ar og at­burði í þjóð­líf­inu í gegn­um lög­in mín,“seg­ir Bubbi.

Laga- og texta­smíð Bubba er ótrú­lega fjöl­breytt. Hann tekst á við fé­lags­leg­an veru­leika, grimmd og ást. Hann horf­ir inn á við og á sam­fé­lag sitt. Eins og Ólaf­ur Egils­son, höf­und­ur söng­leiks­ins, orð­ar svo vel: Saga og sög­ur Bubba eru kannski um leið sög­ur okk­ar allra, sög­ur Ís­lands, frá ver­búð til víð­áttu­brjál­æð­is, frá blindskerj­um til regn­boga­stræta, hlýra­bol­um til axla­púða og aft­ur til baka.

Í geymslu í tossa­bekk

Leið Bubba að skáld­skap og tónlist var ekki beinn veg­ur. Þeg­ar hann var barn var eng­inn skiln­ing­ur fyr­ir því að mik­il sköp­un­ar­gáfa og greind helst ekki endi­lega í hend­ur við aðra færni. „Ég er skrif­blind­ur. Ég var undrastrák­ur á bæk­ur. Bráð­ger og varð snemma læs. Ég var bú­inn að lesa Tol­stoj og Gorkí fyr­ir 10 ára ald­ur. Ég stóð mig líka vel í lestri í skóla. En svo kom að skrift og staf­setn­ingu og þá hrundi ver­öld­in. Ég var sett­ur í geymslu í grunn­skóla, tossa­bekk­inn í Voga­skóla. Þar brotn­aði auð­vit­að eitt­hvað og ég fann fyr­ir ótta við orð og skrif. En samt flúði ég áfram í bæk­ur og tónlist sem krakki vegna þess að ég bjó við alkó­hól­isma.“

Bubbi var send­ur í heima­vist­ar­skóla í Dan­mörku fjór­tán ára gam­all. Þar losn­aði hann að ein­hverju leyti und­an ótt­an­um við að setja hugs­an­ir sín­ar í orð. „Þar var sagt við mig: Þú ert bara í topp­st­andi, þú þarft ekki að taka nein skrif­leg próf í þess­um skóla. Áhersl­urn­ar voru svo allt aðr­ar en ég hafði kynnst á Íslandi. Ég fékk að vera ég.

Svo þeg­ar ég byrja að búa til tónlist þá kem­ur það af mik­illi innri þörf og það stöðv­ar mig ekk­ert. Ég hef síð­an þá og all­an minn fer­il spegl­að sýn mína, á mig og sam­fé­lag­ið. Ég gerði mér ekki grein fyr­ir því þeg­ar ég var til dæm­is að gera Ís­bjarn­ar­blús að þetta væri eitt­hvað sem hefði ekki heyrst áð­ur og væri á skjön við allt ann­að. Í mín­um huga var þetta bara veru­leik­inn. Ég var bara á ver­búð og að þvæl­ast um, fylgj­ast með fólki. Þeg­ar mað­ur er ung­ur þá er mað­ur í nú­inu, þá dvel­ur þú ekk­ert við þessa hluti,“seg­ir Bubbi sem seg­ist hafa ver­ið drif­inn áfram af löng­un til að skilja eitt­hvað eft­ir sig.

„Á þess­um ár­um átti ég minn draum. Mig lang­aði til þess að verða fræg­ur, hafa tekj­ur af því, ná mér í stelpu. Mig lang­aði til að verða stjarna. Þetta er ban­vænn kokteill en samt eru það þess­ar lang­an­ir sem koma þér þang­að sem þú ætl­ar þér. Og svo keyrði ég áfram. Ís­bjarn­ar­blús var fall­byssa inn í ís­lenskt sam­fé­lag. Þá er hætt­an að end­ur­taka sig. En ég gætti mín á því. Ég vildi ögra, taka áhættu. Það er ekk­ert gam­an að vera ekki á brún­inni. Eða að klifra ekki hærra,“seg­ir Bubbi.

Enda­laust for­vit­inn

Hann seg­ir laga­smíð og texta­gerð sína hafa þró­ast með tím­an­um. „Ég lagði sí­fellt meiri rækt við orð­in. En enn þann dag í dag er mér upp­sig­að við regl­ur. Ég tel bra­g­regl­ur hefta, al­veg sama hversu hag­lega er ort. Oft og tíð­um eru mynd­irn­ar sem þú ert að sækja til að setja í lag ekki hinar sömu ef þú set­ur þær fram eft­ir regl­um. Þær verða ekki jafn sterk­ar,“seg­ir Bubbi sem seg­ir það einnig skipta hann máli að fylgja eig­in ætl­an. „Og gefa dauð­ann og djöf­ul­inn í það sem öðr­um finnst,“seg­ir hann.

„Ég hef samt mikla un­un af klass­ískri ljóðlist og les mik­ið bæði ís­lenska og er­lenda höf­unda. Miklu meira en skáld­sög­ur. Ég les mik­ið eft­ir skandi­nav­íska höf­unda. Bæði rót­gróna og mód­ern­ist­ana.“

For­vitn­in leið­ir hann áfram. „Ég er enda­laust for­vit­inn, það er gæfa þess sem skap­ar. Ég leita mik­ið í mína innri ver­öld. Við er­um öll marglaga. Það eru marg­ir heim­ar í einni mann­eskju og þess­ir heim­ar op­in­ber­ast mér oft þeg­ar ég er að fara að sofa. Þá tek ég þetta ferða­lag. Þess vegna finnst mér mjög gott að vakna mjög snemma því þá er þetta enn­þá í minn­ing­unni. Tært og þú sérð til botns. Þessi til­finn­ing dug­ar mér í tvo til þrjá tíma,“seg­ir Bubbi.

Bestu ljóð og bestu lög Bubba hafa orð­ið til vegna erf­ið­leika og sárs­auka. „Það er eitt sem ég hef lært. Og það er að alltaf þeg­ar ég hef upp­lif­að hluti sem hafa ann­að­hvort gert mig skelk­að­an eða óend­an­lega sorg­mædd­an reyn­ast þeir á end­an­um fela í sér gæfu.“

Sá ekki glætu

Hann nefn­ir sem dæmi skiln­að sinn fyr­ir þrett­án ár­um. „Ég upp­lifði að líf mitt væri bú­ið. Ég sá ekki neitt. Ég sá enga glætu í til­ver­unni,“seg­ir Bubbi. „En svo tek­ur líf­ið mann í fang­ið. Ég varð svo fyr­ir öðru þungu áfalli þeg­ar við Hrafn­hild­ur átt­um von á barni sem kom ekki. Það var mik­il sorg, en svo feng­um við ann­að barn, hana Aþenu Lind, þessa stóru gjöf. Hún hefði ekki kom­ið hefði hitt barn­ið lif­að. Og það er stóri lær­dóm­ur­inn, líf­ið er alltaf þarna hand­an við horn­ið og kem­ur svo ræki­lega á óvart,“seg­ir Bubbi sem seg­ir það ein­mitt þess vegna reyn­ast best að treysta inn­sæ­inu frek­ar en höfð­inu.

„Höf­uð­ið er alltaf til­bú­ið til að segja nei. Þú get­ur þetta ekki. Þú ert svo vit­laus og svo fram­veg­is. Það get­ur stund­um ver­ið þinn versti óvin­ur. Á með­an seg­ir hjart­að: Þetta verð­ur allt í lagi, það er eitt­hvað meira. Ég treysti líka inn­sæ­inu bet­ur en höfð­inu þeg­ar ég er að semja. Ég finn það í lík­am­an­um þeg­ar hlut­ir eru rétt­ir. Ég er viss um að aðr­ir finna þetta líka. Fyrsta hug­mynd­in sem fólk fær er oft sú besta því höf­uð­ið hef­ur ekki ef­ast um hana. Þeg­ar ég fæ hug­mynd að lagi eða texta þá læt ég það aldrei fara frá mér því þá mun ein­hver ann­ar taka hana á lofti. Ég stekk á það. Ég finn það fljótt hvort hún virk­ar eða virk­ar ekki. Þeg­ar ég finn að lag er rétt þá líð­ur mér eins og ég sé á toppi til­ver­unn­ar. Það er betra en kyn­líf,“seg­ir Bubbi.

Nátt­úr­an er líka áhrifa­vald­ur í lífi Bubba. „Góðu stund­ir mín­ar í æsku voru í Kjós­inni, í nátt­úr­unni með mömmu og pabba þeg­ar hann var í lagi. Við rer­um út á morgn­ana og veidd­um, við vor­um frjáls­ir, fór­um í fjall­göng­ur og gát­um gert allt sem við vild­um. Mamma var hrif­in af rós­um og pabbi var gríð­ar­lega fróð­ur um tré. Svo þeg­ar ég flutti í Kjós­ina þá vissi ég bara hvað ég átti að gera. Rós­ir eru þerapía dauð­ans. Að fara út í garð snemma á morgn­ana, þeg­ar það hef­ur rignt um nótt­ina, og finna ilm­inn af þeim. Það er góð til­finn­ing. Frá júlí til sept­em­ber á hverju ári eru rós­ir í vasa við rúm stelpn­anna. Það síð­asta sem þær gera þeg­ar þær fara að sofa er að þefa af rós­un­um. Blóm hafa góð áhrif á fólk og það er mann­bæt­andi og ávís­un á ham­ingju að stunda garð­vinnu og rækta blóm. Þetta var alltaf í mér, en svo veit ég ekki hvað verð­ur. Hvort við verð­um áfram í Kjós­inni. Stelp­urn­ar okk­ar

ÉG SAMDI TÓNLIST Á

SPÍTALANUM. ÉG HUGSAÐI MEÐ MÉR AÐ EF ÉG MYNDI

DEYJA ÞÁ FÆRI ÉG SÁTTUR. ÉG HEF ÁTT GÓÐA ÆVI.

eru að verða ung­ling­ar og fá svo­lít­ið að ráða ferð­inni. Ég get rækt­að rós­ir hvar sem er. Við eig­um svo mörg líf. Mín hafa ver­ið fjöl­mörg og kannski verð­ur líf­ið í Kjós­inni bara eitt af þeim. Ég dvel ekki við hluti og hef aldrei gert, það eru mörg líf í einu lífi. Marg­ir heim­ar. Geggj­að æv­in­týri,“seg­ir Bubbi.

All­ir fjar­ver­andi

Af því Bubbi er góð­ur í að rýna í sam­tím­ann er ekki úr vegi að spyrja hann hvað hon­um finn­ist ein­kenna okk­ar tíma. Dag­inn í dag.

„Það eru all­ir fjar­ver­andi. Ég stund­um líka. Ég var á kaffi­húsi um dag­inn með syni mín­um og horfði í kring­um mig. Það grúfðu sig all­ir yf­ir sím­ann. Mann­eskj­ur sem eyða mikl­um tíma í til­gangs­laust ráf og flótta á sím­an­um eða í tölvu­leikj­um eru fjar­ver­andi. Frá sér og öðr­um.

Það virð­ist vera sam­hengi á milli þessa al­gjöra til­gangs­leys­is og van­líð­un­ar og fíkni­hegð­un­ar. Ég finn það sjálf­ur að ég þarf að slíta mig frá sím­an­um. Slökkva á hon­um á ákveðn­um tíma og ef ég passa mig ekki þá kall­ar hann á mig í hausn­um á mér. Ég held að við mun­um þurfa að glíma við af­leið­ing­ar af þessu,“seg­ir Bubbi.

Hrafn­hild­ur stækk­aði mig

Það eru marg­ir þakk­lát­ir Bubba fyr­ir laga­smíð­ar hans. „Það eru svo ótrú­lega marg­ir sem segja að þetta lag eða texti hafi breytt lífi þeirra. Ég hef ekki tölu á því. Ég fæ mig ekki sjálf­ur til að gera upp á milli lag­anna. Breiði bara út faðm­inn ef fólk upp­lif­ir þakk­læti. Áð­ur fannst mér það erfitt.“

Er þetta merki um þroska?

„Ég er ekki viss um það. Ég get enda­laust sam­ið lög og ljóð. Ég get hald­ið 1.500 manns í hendi mér en svo er ég stund­um glat­að­ur eig­in­mað­ur og hé­góm­leg­ur, breysk­ur og oft barna­leg­ur. En Hrafn­hild­ur stækk­aði mig. Hún er mik­il and­stæða við mig. Hún er gríð­ar­lega skipu­lögð og hef­ur svo mikla yf­ir­sýn að ég held að hún sé séní. Ég dá­ist svo að henni og hvernig hún er og hvernig hún hugs­ar um börn­in. Allt sem hún ger­ir með þeim er af skil­yrð­is­laus­um kær­leika og ást. Hún hef­ur hrós­að þeim frá því þau voru lít­il fyr­ir hvað þau duttu vel og í stað­inn fyr­ir tár kom bros og undr­un. Og hún kenndi þeim, al­veg frá því þau gátu tal­að, að mis­tök eru hluti af mann­legu eðli. Ef þau misstu glas og það brotn­aði, þá sagði hún: Og hvað er nú þetta? Þá svör­uðu þau: Mis­tök­in gera okk­ur mann­leg.

Hún á alltaf tíma fyr­ir börn­in. Það er al­veg sama hvað er í gangi. Ef krakk­arn­ir koma þá fá þau at­hygli henn­ar. Þetta er kær­leik­ur og nær­andi upp­eldi. Ég er hins veg­ar upp og nið­ur. Get rok­ið upp og ver­ið há­vaða­sam­ur. Ég er auð­vit­að hálf heyrn­ar­laus og tala hátt. Þeg­ar ég var að kynn­ast Hrafn­hildi skildi hún þetta ekki og fyr­ir henni var hegð­un mín stund­um bara áfall. Þó að hún sé tölu­vert yngri en ég þá býr hún yf­ir miklu meiri þroska en ég á flest­um svið­um,“seg­ir Bubbi hrein­skiln­is­lega. Í ág­úst­mán­uði á síð­asta ári varð Bubbi að hætta við tón­leika á Menn­ing­arnótt eft­ir að hafa ver­ið lagð­ur inn á spít­ala. Bubba blæddi í fjóra sól­ar­hringa og hann vissi ekki hvað væri að. Blóð­ið foss­aði úr nefi og munni. Í ljós kom að slag­æð í kok­inu hafði rifn­að og hann þurfti í að­gerð.

„Í fyrstu drop­aði bara úr nef­inu á mér, síð­an foss­aði blóð­ið. Það var mjög óþægi­legt og það pirr­aði mig hvað þetta var sóða­legt. Blóð­ið slett­ist út um allt. En svo kom magn­að­ur lækn­ir frá Perú til að gera að­gerð­ina, hann hét Fern­ando. Ég lét spila tónlist með Abba í að­gerð­inni og auð­vit­að lag þeirra Fern­ando, seg­ir Bubbi. „Ég var auð­vit­að skelk­að­ur og þetta var erfitt fyr­ir fjöl­skyldu mína. En ég fann sátt. Var ekki hrædd­ur. Ég samdi tónlist á spítalanum. Ég hugsaði með mér að ef ég myndi deyja þá færi ég sáttur. Ég hef átt góða ævi,“seg­ir Bubbi.

FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

„Mann­eskj­ur sem eyða mikl­um tíma í til­gangs­laust ráf og flótta á sím­an­um eða í tölvu­leikj­um eru fjar­ver­andi. Frá sér og öðr­um,“seg­ir Bubbi.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.