Lyga­brigsl frétta­stofu

Fréttablaðið - FÓLK - - Forsíða - Líf­eyr­is­sjóð­ir Ög­mund­ur Jónas­son inn­an­rík­is­ráð­herra

1996 kynnti þá­ver­andi rík­is­stjórn laga­frum­varp um Líf­eyr­is­sjóð starfs­manna rík­is­ins. Ef frum­varp­ið hefði náð fram að ganga hefði líf­eyri­s­kerfi op­in­berra starfs­manna ver­ið rúst­að. Þannig hefði svo­köll­uð eft­ir­manns­regla ver­ið lögð af í einu vet­fangi svo veiga­mik­ið at­riði sé nefnt. Líf­eyri­s­kjör hefðu ver­ið rýrð hjá fólki sem ár­um og ára­tug­um sam­an hafði sam­ið um lak­ari launa­kjör til að við­halda eins traust­um líf­eyr­is­rétt­ind­um og kost­ur var. Þessu tókst að af­stýra.

BSRB, BHM og Kenn­ara­sam­band Ís­lands risu upp til varn­ar rétt­ind­um fé­lags­manna sinna og inn­an veggja Al­þing­is var einnig harð­ur slag­ur. Frum­varp­ið var stöðv­að og sett­ust full­trú­ar fyrr­nefndra sam­taka að samn­inga­borði sum­ar­langt með full­trú­um fjár­mála­ráðu­neyt­is og síð­ar Sam­bandi ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Þeg­ar lið­ið var fram á haust náð­ust samn­ing­ar um að varð­veita öll þeg­ar áunn­in rétt­indi og smíða nýtt kerfi, áþekkt því sem var á al­menn­um launa­mark­aði en með betri kjör­um þó. Við samn­inga­borð­ið tók­um við ekki ann­að í mál en að ið­gjöld­in í nýju kerfi væru nægi­lega há til að ætla mætti að þau risu und­ir rétt­ind­um sem væru áþekk því sem gerð­ist í gamla kerf­inu. Þenn­an varn­ar­sig­ur tel ég einn merk­asta sig­ur­inn sem vannst í kjara­bar­átt­unni á vett­vangi op­in­berra starfs­manna á und­an­förn­um tveim­ur ára­tug­um. Mætti hafa mörg orð um þessi átök og að­drag­anda þeirra.

Þeg­ar samn­ing­ar höfðu náðst lagði fjár­mála­ráð­herra að nýju fram frum­varp sem byggð­ist á þeim. Að sjálf­sögðu studdi ég frum­varp­ið enda hafði ég gegnt hlut­verki að­al­samn­inga­manns BSRB.

En ekki voru öll kurl kom­in til graf­ar því meiri­hluti efna­hag­sog við­skipta­nefnd­ar vildi gera þá breyt­ingu á frum­varp­inu að þar yrði sett inn ákvæði þess efn­is að líf­eyr­is­sjóð­irn­ir yrðu lög­þving­að­ir til að fjár­festa jafn­an þar sem ávöxt­un væri mest, að vísu er einnig tek­ið fram að fjár­fest­ing­in þyrfti að vera traust, en þetta var meg­in­stef­ið. Þeg­ar þessi grein frum­varps­ins var end­an­lega bor­in upp til at­kvæða, sat ég hjá við at­kvæða­greiðsl­una og var þar einn á báti, en hafði uppi eft­ir­far­andi varn­að­ar­orð: „Hér eru greidd at­kvæði um ákvæði þar sem lög­bund­ið er að jafn­an sé leit­að eft­ir hæstu ávöxt­un sem völ er á á mark­aði. Ég tel rangt að lög­þvinga há­marks­vexti með þess­um hætti. Ég tel hins veg­ar rétt að sjóð­stjórn gæti þess jafn­an að leita eft­ir ávöxt­un fjár­muna sjóðs­ins á ábyrg­an hátt. Ég get því ekki stutt þessa breyt­ingu.“

Hvers vegna ekki há­marks­ávöxt­un?

Nú má spyrja hvers vegna líf­eyr­is­sjóð­irn­ir ættu ekki að hlaupa jafn­an eft­ir mestu ávöxt­un­ar­mögu­leik­um sem byð­ust hverju sinni? Ástæð­urn­ar eru að mínu mati marg­ar. Í fyrsta lagi verða líf­eyr­is­sjóð­ir fyr­ir bragð­ið ótraust­ari bak­hjarl en ella, stöð­ugt flökt­andi og á hött­un­um eft­ir ein­hverju betra. Þetta hef­ur og ver­ið reynsl­an, bæði hér á landi og er­lend­is í þeirri gróða­vímu sem heim­ur­inn var í upp úr alda­mót­um. Í öðru lagi hélt ég því jafn­an fram að því meiri arð­sem­is- eða vaxta­kröf­ur sem gerð­ar væru á hend­ur fyr­ir­tækj­um og fjöl­skyld­um af hálfu fjár­magnseig­enda, þeim mun hætt­ara væri við að hinir fyrr­nefndu bogn­uðu und­an byrð­un­um og lán­veit­end­ur kæmu því að tóm­um kof­um á skulda­dög­um. Þar með fengju líf­eyr­is­þeg­ar ekki sitt. Þess­ari rök­semd beitti ég jafn­an þeg­ar stjórn LSR ræddi vaxta­hækk­an­ir. Vís­aði ég þá til þess hluta fyrr­nefndr­ar laga­grein­ar sem kvað á um ör­ygg­ið. Á það vildu fá­ir hlusta jafn­vel þótt bent væri á að við hefð­um mikl­um skyld­um að sinna sem stærstu fjár­fest­ar á Íslandi, sem vær­um fyr­ir bragð­ið for­dæm­is­gef­andi fyr­ir mark­að­inn.

Þá hef ég hald­ið því fram að fjár­magn líf­eyr­is­sjóð­anna væri bet­ur kom­ið í sam­fé­lags­leg­um verk­efn­um sem ráð­ist væri í fyr­ir milli­göngu rík­is­sjóðs. Sú var ein­mitt tíð­in að megn­ið af fjár­magni líf­eyr­is­sjóð­anna rann til upp­bygg­ing­ar í hús­næð­is­kerf­inu og víð­ar til sam­fé­lags­lega mik­il­vægra verk­efna. Ef þann hátt ætti að hafa á dug­ar ekki að búa við laga­ákvæði sem nán­ast lög­þving­ar ok­ur!

Ræða þarf fram­tíð líf­eyr­is­sjóða

Þessa um­ræðu er nú brýnt að taka þeg­ar fram­tíð líf­eyr­is­sjóð­anna verð­ur rædd sem óhjá­kvæmi­legt er að gera. En ástæð­an fyr­ir því að ég sé ástæðu til að skrifa þessa grein mark­ast ekki að­eins af löng­un minni til að taka þátt í um­ræðu um líf­eyr­is­mál til fram­tíð­ar held­ur einnig til að leið­rétta rang­færsl­ur frétta­stofu Sjón­varps sem hef­ur ver­ið í und­ar­legri veg­ferð í um­fjöll­un um líf­eyr­is­mál; bú­ið til frétt­ir sem hafa átt að sann­færa fólk um að ég, öðr­um frem­ur, beri ábyrgð á tapi Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna rík­is­ins í hrun­inu, á ár­un­um 2008 til 2010 þar sem ég hafi ver­ið stjórn­ar­formað­ur LSR ár­ið 2007!

Vegna þessa frétta­flutn­ings mætti ég í Kast­ljósvið­tal í Sjón­varp­inu til að svara fyr­ir mig. Þar drýgði ég þá höf­uð­synd að gagn­rýna fjöl­miðla fyr­ir skort á dýpt í frétta­flutn­ingi um líf­eyr­is­mál­in og stend ég við þá gagn­rýni. Gagn­rýn­in féll í grýtt­an jarð­veg og upp­sker­an varð sú ein að frétta­stof­an hef­ur lagst í mikl­ar rann­sókn­ir til að reyna að sýna fram á að ég hafi haft rangt við í þætt­in­um.

Ómerki­leg frétta­mennska

Þannig var því sleg­ið upp að ég hefði sam­þykkt líf­eyr­is­sjóðs­frum­varp­ið frá ár­inu 1996, sem ég lýsti hér að fram­an. Þar með virð­ist mér hafi átt að dæma ómerka full­yrð­ingu mína í Kast­ljós­inu að ég hefði á sín­um tíma and­mælt laga­ákvæði um há­marks­ávöxt­un líf­eyr­is­sjóða. Ög­mund­ur sagði „já við sjóða­braski“, sagði frétta­stofa Sjón­varps­ins í upp­sláttar­frétt.

Um­fjöll­un um þetta ætti ekki er­indi á síð­ur dag­blaða nema fyr­ir þá sök að ég ætla ekki að sitja þegj­andi und­ir því að frétta­stofa Rík­is­út­varps­ins beri upp á mig lyg­ar. Þekk­ing frétta­manna Rík­is­út­varps­ins á störf­um Al­þing­is á að vera nægj­an­lega mik­il til að þeir kunni að lesa rétt í at­kvæða­greiðsl­ur á Alþingi. Hefði ég greitt at­kvæði gegn lög­un­um í heild sinni hefði ég um leið kos­ið gegn samn­ing­um sem ég átti sjálf­ur stór­an þátt í. Þess vegna gerði ég hið eina rétta í stöð­unni: And­mælti í ræðu­stóli Al­þing­is því ákvæði sem ég var mót­fall­inn og studdi það ekki. Frétta­stofa Sjón­varps hef­ur ekki séð sóma sinn í að leið­rétta lyga­brigsl­in en geri ég það hér með gagn­vart þeim sem þetta lesa.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.