Póli­tískt milli­færslu­kerfi

Fréttablaðið - - SKOÐUN -

Markmið frum­varps um veiði­gjald sem er til um­ræðu á Al­þingi er að færa álagn­ingu gjalds­ins nær í tíma þannig að gjald­tak­an sé meira í takt við af­komu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja. Jafn­framt að gera stjórn­sýslu með álagn­ingu gjalds­ins ein­fald­ari, skil­virk­ari og áreið­an­legri. Frum­varp­ið var unn­ið í sam­ráði við veiði­gjalds­nefnd, Fiski­stofu og embætti rík­is­skatt­stjóra og var lagt fram á Al­þingi 25. sept­em­ber sl. Í kjöl­far­ið hélt ég 11 opna fundi um allt land til að kynna frum­varp­ið og taka þátt í rök­ræð­um. At­vinnu­vega­nefnd Al­þing­is var með mál­ið til með­ferð­ar í um tvo mán­uði og hélt um það 11 fundi og tók á móti um 100 gest­um.

Það var merki­legt að taka þátt í 2. um­ræðu um frum­varp­ið fyr­ir helgi. Þing­menn stjórn­ar­and­stöð­unn­ar voru ekki sam­stíga í gagn­rýni sinni – héldu því ým­ist fram að ver­ið væri að lækka veiði­gjald um marga millj­arða á með­an aðr­ir full­yrtu að frum­varp­ið myndi „tryggja of­ur­skatt­lagn­ingu í sessi“. Við­brögð þing­manna Pírata, Sam­fylk­ing­ar og Við­reisn­ar eft­ir tveggja mán­aða yf­ir­legu voru þau að leggja fram breyt­ing­ar­til­lögu sem ger­ir raun­ar ekki eina ein­ustu breyt­ingu á þeirri að­ferð við inn­heimtu og álagn­ingu veiði­gjalds sem frum­varp­ið kveð­ur á um. Hins veg­ar felst í til­lög­unni að innkalla all­ar afla­heim­ild­ir á 20 ára tíma­bili og end­urút­hluta þeim síð­an aft­ur. Þannig leggja flokk­arn­ir til í 250 orða breyt­ing­ar­til­lögu við frum­varp um veiði­gjald að koll­varpa því fisk­veið­i­stjórn­un­ar­kerfi sem Ís­lend­ing­ar hafa byggt upp og er tal­ið í fremstu röð á heimsvísu.

Þing­menn­irn­ir láta reynd­ar vera að út­færa með hvaða hætti þeir ætla að end­urút­hluta afla­heim­ild­um. Þeir reyna í engu að varpa ljósi á hver fjár­hags­leg áhrif breyt­ing­anna verða á rík­is­sjóð eða ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg. Hvernig standa á að því milli­færslu­kerfi sem flokk­arn­ir hafa all­ir tal­að fyr­ir og mun veita stjórn­mála­mönn­um hvers tíma það vald að út­hluta afla­heim­ild­um, er í engu svar­að nú sem fyrr. Þess­um spurn­ing­um og fleiri til þarf stjórn­ar­and­stað­an að svara þeg­ar um­ræða um mál­ið held­ur áfram á Al­þingi í dag.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.