Öll spjót á Skúla

Mörg mál standa enn út af í við­ræð­um Icelanda­ir og WOW air. Stjórn­end­ur Icelanda­ir vilja ekki að flug­menn WOW air verði á sama kjara­samn­ingi og flug­menn Icelanda­ir. Vax­andi óþreyju gæt­ir á með­al eig­enda flug­véla í rekstri WOW air.

Fréttablaðið - - FORSÍÐA - – hae, kij / Sjá Mark­að­inn

Vax­andi óþreyju gæt­ir á með­al eig­enda flug­véla sem eru í rekstri WOW air. Ótt­ast leigu­sal­arn­ir, sem eru að­al­lega fé­lög sem sér­hæfa sig í fjár­mögn­un og út­leigu flug­véla, að samruni flug­fé­lags­ins og Icelanda­ir gangi ekki eft­ir og að WOW air tak­ist ekki að standa í skil­um um næstu mán­aða­mót – eft­ir að fé­lag­ið hef­ur greitt starfs­fólki sínu laun – með greiðslu af­borg­ana. Eru leigu­sal­arn­ir sagð­ir til­bún­ir til að grípa til að­gerða ef það verð­ur raun­in, sam­kvæmt heim­ild­um Mark­að­ar­ins.

Í bréfi sem Skúli Mog­sen­sen, for­stjóri og eini hlut­hafi fé­lags­ins, sendi á skulda­bréfa­eig­end­ur WOW air í gær kom fram að um­rædd­ir leigu­sal­ar (e. less­ors) fylgd­ust ná­ið með stöðu flug­fé­lags­ins og krefð­ust nú strang­ari greiðslu­skil­mála en áð­ur með til­heyr­andi nei­kvæð­um áhrif­um á sjóð­streymi fé­lags­ins.

Í bréf­inu greindi Skúli einnig frá því að flug­fé­lag­ið hefði ver­ið ná­lægt því að ganga frá samn­ingi um sölu og end­ur­leigu á flug­vél­um sem hefði tryggt fé­lag­inu inn­spýt­ingu upp á 25 millj­ón­ir dala, jafn­virði um þriggja millj­arða króna. Hins veg­ar hefði ver­ið hætt við þau áform.

Flug­fé­lag­ið leit­ar um þess­ar mund­ir allra leiða til þess að bæta lausa­fjár­stöðu sína. Sam­kvæmt heim­ild­um blaðs­ins hef­ur fé­lag­ið með­al ann­ars skoð­að þann mögu­leika að selja lend­ing­ar­stæði sín á Gatwick-flug­vell­in­um í ná­grenni Lund­úna. Eru stæð­in með þeim verð­mæt­ustu í eigu WOW air en ekki ligg­ur þó fyr­ir hvað fé­lag­ið get­ur feng­ið fyr­ir þau.

Enn eru mörg stór mál óleyst í við­ræð­um Icelanda­ir og WOW air sem leysa þarf úr til þess að yf­ir­taka fyrr­nefnda fé­lags­ins á því síð­ar­nefnda gangi eft­ir. Þannig hef­ur ekki enn feng­ist nið­ur­staða í það hvort krafa Icelanda­ir um að for­gangs­rétt­ar­á­kvæði í samn­ing­um fé­lags­ins við Fé­lag ís­lenskra at­vinnuflug­manna (FÍA) muni ekki gilda hjá WOW air í kjöl­far kaup­anna nái fram að ganga.

Fé­lags­menn í FÍA sem starfa hjá Icelanda­ir hafa for­gang í flugi á flug­vél­um í eigu fé­lags­ins og dótt­ur­fé­laga. Með kaup­um Icelanda­ir á WOW air yrðu því flug­menn síð­ar­nefnda fé­lags­ins, að öðru óbreyttu, á sama kjara­samn­ingi og flug­menn Icelanda­ir. Myndi þannig launa­kostn­að­ur lággjalda­flug­fé­lags­ins hækka um­tals­vert.

Mik­ill titr­ing­ur var á mörk­uð­um í gær sem má rekja til óvissu um fjár­hags­stöðu WOW air. Úr­vals­vísi­tal­an lækk­aði um tæp­lega tvö pró­sent og bréf Icelanda­ir féllu í verði um 2,35 pró­sent. Þá lækk­aði gengi krón­unn­ar um hálft til eitt pró­sent gagn­vart helstu gjald­miðl­um.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.