Þriggja metra skíta­skán

Fréttablaðið - - SKOÐUN -

Vin­kona mín hér í London vandi dótt­ur sína af bleiu ekki alls fyr­ir löngu. Ný­ver­ið eign­að­ist vin­kon­an son. Breytt heims­mynd fór fyr­ir brjóst­ið á þeirri stuttu. Hún var ekki leng­ur þunga­miðja ver­ald­ar­inn­ar held­ur hafði móð­ir henn­ar nú öðr­um hnöpp­um að hneppa – aðra rassa að skeina.

Vin­kona mín sat í sóf­an­um og gaf syni sín­um brjóst þeg­ar dótt­ir­in bar upp kröfu: „Mamma, komdu að leika við mig.“

„Ekki strax. Litli bróð­ir er að borða.“Mála­miðl­un var óá­sætt­an­leg. Sú stutta dró sig í keng, varð eld­rauð í fram­an og með kreppta hnefa kúk­aði hún í bux­urn­ar.

Margra vikna her­ferð var haf­in. Í hvert sinn sem móð­ir­in brást ekki við ósk­um stúlk­unn­ar strax gerði sú yngri í bræk­urn­ar.

Eitt sinn voru móð­ir og börn stödd úti á róló. Stelp­an klifr­aði upp þriggja metra langa renni­braut á með­an mamm­an sat á bekk og gaf bróð­ur henn­ar brjóst.

„Mamma, komdu að renna með mér,“hróp­aði stelp­an þar sem hún stóð efst í renni­braut­inni.

„Ekki strax.“

Það þurfti ekki að spyrja að því. Sú stutta dró sig í keng. Mamm­an vissi sam­stund­is hvaða skila­boð biðu henn­ar í brók­um dótt­ur­inn­ar. En dótt­ir­in hafði fleira til mál­anna að leggja. Hún sett­ist nið­ur. Því næst þaut hún nið­ur renni­braut­ina á rass­in­um. Eft­ir endi­langri braut­inni lá þriggja metra löng skán.

Móð­ir­in rauk upp. Skömm­ustu­leg skreið hún eft­ir renni­braut­inni og þurrk­aði burt um­merki óánægju dótt­ur sinn­ar með blaut­þurrk­um á með­an róló-gest­ir horfðu á.

Dótt­ir vin­konu minn­ar er ekki sú eina hér í Bretlandi sem sit­ur í skítn­um.

Cor­byn með mat­vinnslu­vél

Brex­it-raun­ir Breta náðu há­marki í vik­unni. Út­göngu­samn­ing­ur Th­eresu May var kol­felld­ur í breska þing­inu. Bret­ar eru í djúp­um skít.

Út­ganga Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu er einn sjálf­hverf­asti gjörn­ing­ur síð­an Narkis­sos sá speg­il­mynd sína í vatns­fleti og varð svo ást­fang­inn að hann sat og glápti á sjálf­an sig uns hann vesl­að­ist upp og dó. Þetta hófst allt á því að veik­geðja leið­tog­ar Breska íhalds­flokks­ins lof­uðu þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu til að verja eig­ið fylgi gegn upp­gangi and-Evr­ópu­flokks­ins UKIP. Og enn snýst Brex­it um Íhalds­flokk­inn. Furðu­fugla-arm­ur flokks­ins heimt­ar „hart Brex­it“og leið­ir heila þjóð, blind­ur eft­ir ára­tuga langt hug­mynda­fræði­legt runk, fram af kletta­brún sem hann lof­ar að endi í hátt­vís­um Downt­on Abbey þætti.

Ekki er stjórn­ar­and­stað­an minna upp­tek­in af eig­in speg­il­mynd. Jeremy Cor­byn, leið­togi Verka­manna­flokks­ins, held­ur að hann sé stadd­ur í sög­unni um Salómon kon­ung sem tek­ur á móti tveim­ur kon­um er báð­ar segj­ast vera móð­ir sama barns. Þeg­ar kon­ung­ur, til að kanna móð­ur­ást kvenn­anna, legg­ur til að hann höggvi barn­ið í tvennt rétt­ir Cor­byn kóngi mat­vinnslu­vél: „Gerðu það sem þú vilt við þetta barn svo lengi sem boð­að verð­ur til kosn­inga.“Evr­óp­us­inn­ar allra flokka sparka loks vígreif­ir í spila­borg­ina hróp­andi „ras­ist­ar, ras­ist­ar“, á barmi þess að tryggja að nið­ur­staða þjóð­ar­at­kvæða­greiðsl­unn­ar verði huns­uð. Í leið­inni renna þeir stoð­um und­ir þá kenn­ingu að allt það fólk sem sagð­ist hafa kos­ið Brex­it vegna þess að því fannst það utangátta í sam­fé­lagi sem stýrt er af alls ráð­andi elítu, sama hvernig kosn­ing­ar fara, var kannski ekki hald­ið of­sókn­a­ræði eft­ir allt sam­an.

Ver­öld sem aldrei var

Dótt­ir vin­konu minn­ar kúk­aði í bux­urn­ar í bar­áttu fyr­ir for­tíð sem aldrei var og fram­tíð sem aldrei yrði; ver­öld þar sem sól­in og móð­ir henn­ar sner­ust kring­um hana eina. Það skipti ekki máli þótt all­ir sætu í skítn­um – hún sjálf, móð­ir henn­ar, hinir krakk­arn­ir á rólón­um. Óþæg­ind­in voru ásætt­an­leg fórn fyr­ir ást­ina á eig­in speg­il­mynd.

Stjórn­mála­menn Bret­lands eru eins og smá­barn sem kúk­ar á sig. Þeir munu sitja með okk­ur hinum í skítn­um. En þeir eru of upp­tekn­ir við að dást að eig­in speg­il­mynd til að taka eft­ir því.

Sú stutta er kom­in aft­ur í bleiu. Ef að­eins væri hægt að setja stjórn­mála­menn í bleiu.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.