Eru kenn­ar­ar drauma­smið­ir?

Kenn­ar­ar ræða óhefð­bundna og fjöl­breytta kennslu­hætti. Slík kennsla er sí­fellt að ryðja sér meira til rúms og virð­ist halda bet­ur ut­an um hvern og einn nem­anda. Góð sam­skipti eru lyk­ill og kenn­ar­ar geta haft mik­il áhrif á sjálfs­mynd nem­enda.

Fréttablaðið - - FORSÍÐA - Gunn­þór­unn Jóns­dótt­ir gunnt­hor­[email protected]­bla­did.is

Skóla­kerf­ið hef­ur ver­ið gagn­rýnt í gegn um tíð­ina.

Lilja M. Jóns­dótt­ir lauk sínu fer­tug­asta ári sem grunn­skóla­kenn­ari og kenn­ari í mennt­un­ar­fræð­um síð­ast­lið­ið vor. Eitt af þró­un­ar­verk­efn­um Lilju var að skoða hvernig kenn­ari get­ur nýtt sköp­un­ar­kraft og gagn­rýna hugs­un nem­enda bet­ur, hvernig hægt er að þróa náms­mat í skap­andi námi og nýta bet­ur hæfi­leika, styrk­leika og getu hvers og eins nem­anda.

„Mér finnst þetta orða­lag um að kenn­ar­ar séu drauma­smið­ir al­veg frá­bært. Þetta er akkúrat það sem hef­ur hald­ið mér gang­andi í leik og starfi í gegn­um ár­in. Ég er bú­in að kenna í 40 ár og finnst það al­veg jafn gam­an núna og þá. Ég hef ver­ið lán­söm að vera í þessu skap­andi og fjöl­breytta starfi sem er líka áhuga­mál­ið mitt og ég hef mikla ánægju af,“seg­ir Lilja.

„ Síð­ustu 10 ár­in mín í grunn­skóla­kennslu starf­aði ég í teymis­kennslu með Önnu Jepp­esen heit­inni, sem var helsti frum­kvöð­ull hér á landi í því að nota leik­list í kennslu. Við nýtt­um það mik­ið í okk­ar kennslu og gekk það vel. Ég gerði loka­verk­efni mitt til kenn­ara­prófs um opna skóla­stofu og var al­veg ákveð­in í því að ég ætl­aði að reyna að fram­kvæma það, al­veg frá byrj­un. Fyrsta ár­ið mistókst en sem bet­ur fer hélt ég áfram að kenna og leit­aði mér að meiri þekk­ingu og reynslu því ég þekkti þetta fyr­ir­komu­lag að­eins af bók­um. Þar sem ég hafði sjálf ekki al­ist upp við slíkt skólastarf fór ég með­al ann­ars í heim­sókn í Foss­vogs­skóla sem var op­inn skóli á þeim tíma. Þar fékk ég hug­mynd­ir um fyrstu skref­in sem ég gat tek­ið. Það tók nokk­ur ár að skoða og prófa hvert ég vildi fara með þetta.“

Upp úr því þró­aði Lilja ákveð­ið kerfi fyr­ir nem­end­ur sem sner­ist um það að geta á far­sæl­an hátt sinnt hverj­um og ein­um nem­anda. Kerf­ið henn­ar Lilju er þannig að skóla­starf­inu er skipt upp í þrennt. Það eru kjarna­tím­ar í kjarna­grein­um, val í svo­kall­aðri hring­ekju sem eru stöðv­ar með sjálf­stæð­um verk­efn­um og er ein stöð­in fund­ar­stöð en þar fá nem­end­ur tæki­færi til að hitta kenn­ara á fundi viku­lega og gera áætl­un um nám sitt.

Loks eru stærri verk­efni sem fella má und­ir verk­efnamið­að nám (e. proj­ect based le­arn­ing) og eru þau unn­in í mislöng­um lot­um. Þar er lögð áhersla á sam­þætt­ingu náms­greina og skap­andi nám. Í þess­um verk­efn­um fá nem­end­ur með­al ann­ars þjálf­un í sam­skipt­um, sam­vinnu og upp­lýs­inga­leit og úr­vinnslu upp­lýs­inga í sam­ein­ingu.

„Ég lagði könn­un fyr­ir nem­end­ur þeg­ar ég var í fram­halds­námi mínu í Kan­ada þar sem ég spurði með­al ann­ars hvað þeim fynd­ist um kerf­ið og þessa áætl­un. Það kom í ljós að þeim fannst þetta skipta mjög miklu máli, sér­stak­lega sú stund að geta set­ið með kenn­ar­an­um sín­um og rætt um sig og sitt nám og líð­an sína,“seg­ir Lilja.

Marg­ir af kenn­ara­nem­um Lilju hafa tek­ið upp þetta kerfi eða að minnsta kosti brot úr því.

Hvernig finnst þér skólastarf á Íslandi?

„Það er mun betra og fjöl­breytt­ara en al­menn­ing­ur held­ur. Það er reynsla okk­ar sem höf­um ver­ið að rann­saka ís­lenskt skólastarf að þeg­ar fólk er spurt um eig­in reynslu þá hef­ur það frá ein­hverju nei­kvæðu að segja. En svo þeg­ar það er spurt um kenn­ara frá sinni æsku eða kenn­ara barna þeirra þá er yf­ir­leitt mik­il ánægja. Það hafa all­ir sög­ur af kenn­ur­um sem eru ekki úr­vals kenn­ar­ar en miklu fleiri eiga sög­ur af góð­um kenn­ur­um. Skól­ar á Íslandi eru alla­vega mun fjöl­breytt­ari en fólk held­ur,“seg­ir Lilja sem hef­ur mikla trú á ung­um kenn­ur­um í dag.

Þró­un­in í skóla­kerf­inu hæg

Þró­un í átt að fram­sæknu skóla­starfi hef­ur ekki ver­ið mjög hröð og á það ekki að­eins við um Ís­land, nema kannski hjá ein­stök­um skól­um og ein­stök­um kenn­ur­um. Lilja skrif­aði doktors­rit­gerð þar sem hún velti með­al ann­ars upp þeirri spurn­ingu hvað það væri sem hindr­aði slíka þró­un.

„ Ég fylgdi fimm byrj­end­um í kennslu fyrstu fimm ár­in þeirra og reyndi að finna út hvernig þeim gengi að verða sá kenn­ari sem þeir ætl­uðu sér að verða. Ég var satt að segja orð­in nokk­uð óþol­in­móð yf­ir því hversu hægt þessi þró­un hafði geng­ið,“seg­ir Lilja.

Hug­tak­ið per­sónu­leg, hag­nýt reynsla kenn­ar­ans var eitt af því sem skýrði nið­ur­stöð­ur Lilju. Það sem segja má að sé einna áhrifa­mest er 14 ára skóla­ganga ásamt því hvaða við­horf gagn­vart námi og skóla­starfi við­kom­andi elst upp við á heim­ili sínu. Kenn­ara­nem­ar koma síð­an með þessa 14 ára reynslu, sem í lang­flest­um til­vik­um er hefð­bund­ið skólastarf, inn í kenn­ara­nám­ið. Í kenn­ara­nám­inu kynn­ast þeir svo nýj­um hug­mynd­um og kennslu­að­ferð­um sem þeir prófa í æf­inga­kennslu og vett­vangs­námi og mót­ar hug­mynd­ir þeirra um hvernig kenn­ar­ar þeir vildu verða.

„ Nið­ur­stað­an var sú að þeg­ar kenn­ara­nem­ar út­skrif­ast ætla þeir að verða fram­sækn­ir og góð­ir kenn­ar­ar. En á fyrsta ár­inu hell­ist yf­ir þá alls kon­ar áreiti, skyld­ur og kröf­ur. Rann­sókn­in und­ir­strik­ar hversu íþyngj­andi þess­ir erf­ið­leik­ar eru á sama tíma og þess­ir ný­lið­ar eru að reyna að ná tök­um á starf­inu. Í tíma­hrak­inu sem þeir upp­lifa grípa þeir gjarn­an til þess sem þeir þekkja best, sem er þessi 14 ára reynsla sem þeir hafa sem nem­end­ur. Þetta er nán­ast orð­in lík­am­leg þekk­ing. Ef ekki er grip­ið inn í fyrstu þrjú ár­in til dæm­is með stuðn­ingi, símennt­un eða leið­sögn ein­hvers fram­sæk­ins kenn­ara þá er mik­il hætta á að þeir fest­ist í þessu fari.“

Lilja seg­ir að það sé mik­ið álag og áreiti sem fylgi því að vera einn að kenna 20-25 börn­um í einu. Marg­ir ný­lið­ar í kennslu setji nýja þekk­ingu sína úr kenn­ara­nám­inu til hlið­ar í slík­um að­stæð­um.

„Eitt af því sem get­ur sporn­að við þessu og mik­ið er kall­að eft­ir í dag er svo­köll­uð teymis­kennsla. Kenn­ar­ar óska eft­ir því að kom­ast í gott teymi. Það þýð­ir að kannski tveir um­sjón­ar­kenn­ar­ar eru sam­an með tvo bekki. Þetta finnst mér gott fyr­ir­komu­lag þar sem kenn­ar­ar bera sam­eig­in­lega ábyrgð á námi nem­enda, skipu­leggja það sam­an og ræða og velta fyr­ir sér lausn­um,“seg­ir Lilja. „Það sem við höf­um ver­ið að vinna með síð­asta ár­ið í kenn­ara­nám­inu er ein­mitt það, að leggja áherslu á teymi og teym­is­hugs­un, þar sem rætt er um kennsl­una, hvernig hún tókst, ræða ár­ang­ur og ár­ang­urs­leysi og ígrunda sam­an. Með tvo eða fleiri kenn­ara er hægt að skipta nem­enda­hópn­um á milli sín og vera með alls kyns hópa­skipt­ing­ar. Þannig er hægt að ein­blína á styrk­leika og leggja bet­ur áherslu á það að hver og einn nem­andi er ein­stak­ur.“

Ég gerði loka­verk­efni mitt til kenn­ara­prófs um opna skóla­stofu og var al­veg ákveð­in í því að ég ætl­aði að reyna að fram­kvæma það, al­veg frá byrj­un.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.