Atli Heim­ir Sveins­son

Fréttablaðið - - SKOÐUN - Þor­vald­ur Gylfa­son

Reykja­vík – Það var um 1960 að ung­ur tón­smíðanemi í Köln fékk sím­skeyti frá Íslandi þar sem hann var beð­inn að fara á járn­braut­ar­stöð­ina í Ham­borg til að taka á móti mik­il­væg­um gesti frá Berlín og fylgja hon­um á Hotel Vier Ja­hreszeiten, fín­asta hót­el Ham­borg­ar þá sem nú. Og þá sem nú var jafn­langt frá Köln til Ham­borg­ar eins og frá Akur­eyri til Reykja­vík­ur. Gest­ur­inn var Jón Leifs tón­skáld. Nem­inn var Atli Heim­ir Sveins­son. Atli kom á stöð­ina á til­skild­um tíma, lest­in kom frá Berlín, en Jón Leifs var hvergi að sjá. Atli beið næstu lest­ar frá Berlín og ekki birt­ist Jón. Enn beið Atli unz hann sá að eitt­hvað hlaut að hafa far­ið úr­skeið­is svo hann fór á hót­el­ið. Þar var Jón. Hann hafði tek­ið sér leigu­bíl frá Berlín, tæp­lega 300 km leið.

Atli Heim­ir leit upp til Jóns Leifs. Ef við tök­um upp nýj­an þjóð­söng, sagði Atli, þá á hann að vera lag Jóns Leifs við „Rís þú, unga Ís­lands merki“eft­ir Ein­ar Bene­dikts­son. Tón­verk Jóns Leifs náðu ekki mik­illi hylli með­an Jón lifði, hún kom síð­ar. Jón vissi sem var að tónlist hans þyrfti tíma og lét það ekki á sig fá. Eft­ir hans dag voru verk hans flutt æ oft­ar og víð­ar og selj­ast nú á disk­um eins og heit­ar lumm­ur heima og er­lend­is.

Kvæði skáld­anna

Atli Heim­ir naut þess um­fram Jón Leifs að lög­in hans mörg sungu sig inn í hjarta þjóð­ar­inn­ar, lög sem næst­um all­ir kunna. Það kom sér vel á leik­hús­ferða­lagi Ís­lend­inga um Þýzka­land fyr­ir mörg­um ár­um þeg­ar lista­fólk­ið fremst í rút­unni tók eft­ir því að Atli sat einn aft­ar­lega í bíln­um hnugg­inn að sjá. Eitt­hvað virt­ist angra hann. Einn far­þeg­inn bað þá litla stúlku að fara til Atla og syngja fyr­ir hann. Barn­ið fór aft­ur í og söng fyr­ir hann „Kvæð­ið um fugl­ana“(Snert hörpu mína, him­in­borna dís), lag Atla við kvæði Davíðs Stef­áns­son­ar, öll er­ind­in. Atli tók gleði sína. Atli var jafn­an glað­ur og reif­ur, af­burða­skemmti­leg­ur fé­lagi, frjáls­lynd­ur, fróð­ur og víð­sýnn og sjór af sög­um.

Söng­lög Atla Heim­is eru fá­gæt­ur fjár­sjóð­ur og fjöl­breytt­ur. Lög­in hans 27 við kvæði Jónas­ar Hall­gríms­son­ar hafa ver­ið hljóð­rit­uð tvisvar, 1997 og 2007, og eru einnig til á prenti. Atli sagð­ist vilja „hafa lög­in al­þýð­leg, ein­föld og róm­an­tísk; ein­hvers stað­ar á milli Schuberts og Sig­valda Kaldalóns.“Atli tón­setti kvæði mik­ils fjölda inn­lendra og er­lendra skálda, þ.m.t. Ein­ar Bene­dikts­son og Pa­blo Neruda sem ekki mörg önn­ur tón­skáld hafa glímt við. Atli skildi að kvæði skáld­anna geta lif­að leng­ur séu þau sung­in.

Tón­skáld í stóru broti

Stund­um er sagt um Ed­vard Grieg, helzta tón­skáld Norð­manna, að hann geti varla talizt hafa ver­ið stór­brot­ið tón­skáld. Það þyk­ir mér und­ar­leg skoðun á tón­skáldi sem samdi einn fín­asta pí­anókonsert heims­ins við hlið smærri pí­anó­verka og söng­laga sem eru mest fyr­ir­ferð­ar á verka­skrá Griegs.

Atli Heim­ir Sveins­son var jafn­víg­ur á stór­virki og smærri verk. Hann var stór­brot­ið tón­skáld, einn með öllu. Auk söng­laga hans, þ.m.t. kór­verk og leik­hús­tónlist, liggja eft­ir hann sex sin­fón­í­ur, fimm óper­ur, fjöl­marg­ir konsert­ar og verk fyr­ir smærri hljóð­færa­hópa ým­ist í fram­sækn­um eða göml­um stíl eft­ir at­vik­um. Verk hans eru til á 45 disk­um.

Atli gerði sér stund­um leik að því að bregða sér í líki annarra tón­skálda. Hvernig skyldi Wagner hafa haft þetta lag eft­ir Kaldalóns? gat Atli átt til að spyrja, sett­ist við hljóð­fær­ið og leyfði vin­um sín­um að heyra. All­ir skelli­hlógu.

Lang­hlaup út yf­ir líf og gröf

Sum stór­virkja Atla Heim­is hafa náð út­breiðslu um heim­inn, önn­ur bíða, einkum sin­fón­í­urn­ar sex. Þær þyrfti að flytja á ný og gefa út. Heild­ar­út­gáfa þeirra myndi auka hróð­ur Ís­lands.

Atli sendi mér fyr­ir mörg­um ár­um einka­hljóð­rit­un af flutn­ingi Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Ís­lands á 2. sin­fón­íu hans, frá­bært verk sem tek­ur heila klukku­stund í flutn­ingi. Nokkru síð­ar kom gam­all kenn­ari minn og koll­egi frá Pr­incet­on-há­skóla í heim­sókn til Reykja­vík­ur, sér­fróð­ur um evr­ópska nú­tíma­tónlist. Hann þekkti verk Jóns Leifs og bað mig að benda sér á yngri tón­skáld ís­lenzk. Ég fékk leyfi Atla til að senda mann­in­um hljóð­rit­ið af 2. sin­fón­í­unni. Nokkr­um vik­um síð­ar fékk ég svohljóð­andi skeyti frá Pr­incet­on: Sveins­son er betri en Leifs. Ég fram­sendi skeyt­ið til Atla. Hann fór hjá sér eins og feim­inn ung­ling­ur. Hann hamp­aði ekki sjálf­um sér. Hon­um var ekki sýnt um að koma verk­um sín­um á fram­færi. Atli vissi eins og Jón Leifs á und­an hon­um að fram­sækn­ar tón­smíð­ar eru lang­hlaup út yf­ir líf og gröf.

Nú er rödd hans þögn­uð, en tónlist Atla Heim­is Sveins­son­ar mun lifa lengi á Íslandi og úti um heim.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.