Tón­list­in bæt­ir, hress­ir, kæt­ir

Fréttablaðið - - TILVERAN - Teit­ur Guð­munds­son lækn­ir

Þetta hljóm­ar eins og ein­hvers kon­ar sölu­mennska, þessi tit­ill, en það er flest­um ljóst að tónlist hef­ur marg­vís­leg áhrif á mann­skepn­una og í sum­um til­vik­um get­um við not­að hana sem með­ferð eða í það minnsta sem við­bót­ar­með­ferð. Vís­ind­in hafa sýnt fram á að tónlist get­ur haft áhrif á til­finn­ing­ar, líð­an, hegð­un, hreyfigetu og þess ut­an á minni og ein­beit­ingu þar sem hlut­ar heil­ans sem tengj­ast úr­vinnslu og nálg­un á þá þætti virkj­ast við hlust­un.

Þrátt fyr­ir að við vit­um nú enn meira en áð­ur um þær teng­ing­ar sem eru í heil­an­um við hinar mis­mun­andi stöðv­ar hans og þá sér í lagi boð­efna­kerfi heil­ans er­um við enn á byrj­un­arstigi í nálg­un okk­ar að nota tónlist sem með­ferð­ar­form. Víða hef­ur tónlist ver­ið beitt í slök­un og til að lina verki sem og einnig auka­verk­an­ir af með­ferð. Har­vard-há­skóli hef­ur birt gögn sem sýna fram á að tónlist get­ur minnk­að þörf fyr­ir ró­andi og verkjalyf við að­gerð­ir og dreg­ið úr kvíða svo eitt­hvað sé nefnt. Tón­list­ar­með­ferð hef­ur einnig gagn­ast þeim sem hafa feng­ið heila­áfall og mál­stol vegna áverka í vinstra heila­hveli þar sem mál­stöðv­arn­ar eru. Er það gert með því að reyna að syngja og fara þannig fram hjá áverk­an­um. Söng­ur á upp­runa sinn í hægra heila­hveli og æf­ing með þess­um hætti get­ur end­ur­skap­að mál­til­finn­ingu og tal.

Við þekkj­um þá einnig að í minn­istrufl­un­ar­sjúk­dómi glat­ast hæfi­leik­inn til þess að njóta tón­list­ar og end­ur­vekja minn­ing­ar með þeim hætti að syngja mjög seint í sjúk­dóms­ferl­inu. Þess vegna geta sum­ir sjúk­ling­ar, t.d. Alzheimer-sjúk­ling­ar, mun­að heilu lög­in og sung­ið með þó að þeir sé með öllu ófær­ir um að tjá sig skil­merki­lega ann­ars. Við þekkj­um líka dæmi þess að tón­list­ar­með­ferð virk­ar í sjúk­linga­hópi þeim sem glím­ir við hreyfirask­an­ir líkt og Park­in­son og við­líka vanda. Þar bygg­ist nálg­un­in á því að sá tauga­sjúk­dóm­ur skemm­ir með tím­an­um boð­efna­kerfi sem veld­ur veru­legri trufl­un á sam­hæf­ingu sem svo glat­ast með tím­an­um, og eyk­ur stífni og skjálfta. En þess­um sjúk­dóm­um fylg­ir líka mjög reglu­lega tals­verð­ur kvíði og dep­urð, sér­stak­lega þeg­ar við­kom­andi get­ur fylgt þró­un sjúk­dóms­ins sjálf­ur eft­ir.

Sýnt hef­ur ver­ið fram á að tónlist dragi veru­lega úr and­leg­um ein­kenn­um þessa sjúk­linga­hóps og hef­ur hún ver­ið ráð­lögð. Við vit­um að ryt­mi er mik­il­væg­ur sem hluti af teng­ingu milli heyrn­ar og hreyfi­kerfa lík­am­ans. Við get­um til að mynda haft áhrif á þá sjúk­linga með því að láta þá hlusta á tónlist sem þeim lík­ar og eiga þeir þá auð­veld­ara með hreyf­ingu, bætt göngu­lag og sam­hæf­ingu. Með þess­um hætti er hægt að við­halda færni mögu­lega leng­ur og hafa áhrif á lífs­gæði og líð­an þess­ara sjúk­linga.

Það má því segja að tón­list­in hafi marg­vís­leg áhrif, smekk­ur­inn er mis­jafn og því er mik­il­vægt að átta sig á því hvað hreyf­ir við við­kom­andi. Eins og við þekkj­um öll eru minn­ing­ar og teng­ing­ar við tónlist og at­burði lífs mjög sterk­ar og hið sama gild­ir um gott lag sem ein­stak­ling­ur­inn er hrif­inn af, það mun hreyfa við hon­um. Skiln­ing­ur okk­ar er enn tak­mark­að­ur en það bæt­ist í hann dag frá degi, ljóst er hins veg­ar að þarna eru vannýtt tæki­færi í með­höndl­un sjúk­linga sem við ætt­um að skoða frek­ar.

Newspapers in Icelandic

Newspapers from Iceland

© PressReader. All rights reserved.